Insula

Sykursýki InsulaInsula sinnir greiningu, eftirliti og meðferð fólks með sykursýki og aðra efnaskipta sjúkdóma s.s. skjaldkirtilssjúkdóma, fjölblöðruheilkenni, sjúkdóma í heiladingli, kalkkirtlum og nýrnahettum. Meginmarkmiðið er að veita greiðan aðgang að þjónustu fagaðila en einnig auka fræðslu fyrir sykursjúka með árangursríkum námskeiðum þar sem notuð eru samtalskort. Fyrirtækið var stofnað vorið 2009 og opnaði þá í nýju húsnæði í Vesturhúsi Glæsibæjar. Á sama stað er augnlæknastöðin Sjónlag en mjög mikilvægt er að fólk með sykursýki sé í reglubundnu eftirliti hjá augnlækni. 1.nóvember 2013 fluttist fyrirtækið í húsnæði Hjartamiðstöðvarinnar Holtasmára 1 í Kópavogi (sama hús og Hjartavernd).

Sykursýki

Sykursýki af tegund 2 ásamt offitu eru mestu heilbrigðisvandamál þessarar aldar. Það er einkum vegna þess að sykursýkin er æðasjúkdómur og hefur því alvarlega fylgikvilla sé honum ekki vel sinnt. Góðu fréttirnar eru þær að fólk sem greinist með sykursýki getur haft mikið um það að segja hvernig því reiðir af. Ef það hugsar vel um sig, borðar holla fæðu, hreyfir sig reglulega, tekur þau lyf sem læknirinn hefur ráðlagt og mætir í reglubundið eftirlit þá er eins líklegt að viðkomandi muni ekki þurfa að þjást af alvarlegum fylgikvillum sykursýkinnar.

Námskeið

Við hjá Insula höfum því ákveðið að byrja með fræðslunámskeið sérstaklega ætluð sykursjúkum með tegund 2. Við munum nota nýstárlega kennsluaðferð, s.k. samtalskort þar sem 6-10 manns eru saman í hóp og ræða um sjúkdóminn með leiðbeinanda. Þar verður farið yfir orsakir sykursýkinnar, hvernig eftirliti er háttað og hvers vegna það er mikilvægt. Hvaða meðferðarúrræði eru í boði og hverjar horfurnar eru. Því meira sem fólk lærir um sykursýkina og því meiri ábyrgð sem það tekur á eigin heilsu því betur gengur að halda sjúkdómseinkennum í skefjum.

Rannsóknir

Læknir Insula, Arna Guðmundsdóttir hefur starfað sem sérfræðingur í lyflækningum og efnaskiptalækningum frá árinu 2002 en hennar megin sérgrein er sykursýki. Hún hefur haft umsjón með meðferð með insúlindælum á Göngudeild sykursjúkra á Landspítala frá því að slík meðferð hófst á Íslandi 2004 og haldið fjölda fyrirlestra um sykursýki á síðustu árum. Hún er þátttakandi í fjölþjóðlegri lyfjarannsókn þar sem verið er að rannsaka ný lyf sem lækka blóðsykur og valda auk þess þyngdartapi.